Innlent

Fær ekki nafn tölvunotanda

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu lögreglunnar um að fá uppgefið nafn á tölvunotanda sem setti klámmynd inn á heimasíðu íslensks tölvufyrirtækis. Brotist var inn á heimasíðu tölvuverslunarinnar Task í febrúar og sendur fjöldapóstur í nafni fyrirtækisins á 1600 netföng sem voru á póstlista fyrirtækisins en í þessum pósti var tengill inn á grófa klámmynd og einnig hafði forsíðu heimasíðunnar verið breytt þannig að í stað myndar af hörðum diski var komin klámmynd. Rannsókn málsins leiddi í ljós að tveir aðilar tengdust þessum aðgerðum, einn í Bandaríkjunum en hinn á Íslandi. Lögreglan var með svokallað IP-númer þess sem verknaðinn framdi og krafði hún fyrirtækið sem skráði númerið, IP fjarkskipti, um nafn notandans. Lögreglan krafðist upplýsinganna á grundvelli hegningarlaga er varða birtingu kláms og eignaspjöll. Þá var vísað til þess að ríkir almannahagsmunir krefðust þess að málið upplýstist. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu lögreglunnar á grundvellli þess að ekki væru ríkir almannahagsmunir í húfi og vísaði til þess að heimildum til að beita rannsóknarúrræðum væru settar þröngar skorður með tilliti til einkalífs manna. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms í gær og getur lögreglan því ekki krafið starfsmenn tölvufyrirtækisins um nafn notandans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×