Innlent

Breytingar ná ekki til skotmanna

Breytingar á almennum hegningarlögum sem gerðar voru í fyrra og áttu að tryggja skjótvirkari og skilvirkari úrræði gagnvart afbrotamönnum sem brjóta af sér í reynslulausn ná ekki til ofbeldismannanna sem skutu mörgum sinnum á ungan mann á Akureyri nýverið. Í fyrravetur skipaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra nefnd til að skila tillögum sem miðuðu í þessa átt og skilað nefndin af sér í febrúar og breytingar urðu að lögum í maílok í fyrra. Þær ná hins vegar ekki til manna sem eru á skilorði, það er að þeir fái að vera lausir hluta af dómstímanum samkvæmt dómi eða jafnvel allan dómstímann eins og er í tilviki Akureyringanna, samkvæmt heimildum fréttastofu. Þrátt fyrir að árásarmennirnir hafi báðir hlotið dóma voru þeir alveg skilorðsbundnir í báðum tilvikum þannig að þeir fóru aldrei í fangelsi og þar með ná breytingarnar ekki til þeirra. Hefðu þeir hins vegar hlotið nokkurra mánaða fangelsisdóma, óskilorðsbundna, en fengið reynslulausn áður en afplánun lauk hefðu breytingarnar náð til þerra. Það er því spurning hvort breytingarnar hafa fyllilega náð takmarki sínu, en í greinargerð með þeim segir meðal annars að megintilgangur laganna sé að gera hið almenna skilyrði reynslulausnar hegningarlaga virkara réttarúrræði með því að tryggja að fyrir hendi sé í lögum skjótvirkt og skilvirkt úrræði til að leita úrskurðar dómara um að maður sem hlotið hefur reynslulausn verði látinn afplána refsingu þegar í stað hafi hann gróflega rofið hið almenna skilyrði reynslulausnar. Þarna er ekki minnst á skilorð og á því sleppa Akureyringarnir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×