Innlent

Ámælisvert að taka ekki við kæru

Héraðsdómur Reykjavíkur gagnrýnir að Lögreglan í Reykjavík skyldi ekki samdægurs taka við kæru vegna nauðgunar og bera við vegna manneklu sökum námskeiðahalds. "Ámælisvert er að lögreglan skyldi ekki taka á móti nauðgunarkæru þegar í stað eins og bar að gera af augljósum ástæðum," segir í dómi sem féll á miðvikudag. Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn undraðist athugasemdir dómsins og taldi að frestunin á móttöku kærunnar hefði verið í fullu samráði við Steinunni Guðbjartsdóttur, réttargæslumann konunnar, en því neitar hún. "Þá hefði ég ekki séð ástæðu til að skrifa lögreglunni bréf og kvarta yfir málsmeðferðinni," sagði hún. Maðurinn sem nauðgaði konunni var dæmdur í tveggja ára fangelsi, auk þess að greiða henni 700 þúsund krónur í miskabætur. Hann á að baki langan sakaferil og hefur frá árinu 1985 hefur hlotið 13 refsidóma. Árásin átti sér stað 8. nóvember í fyrra, en konan hafði farið heim til mannsins til að binda endi á fyrra samband þeirra. Maðurinn var handtekinn tveimur dögum síðar, eftir að ákæra var lögð fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×