Innlent

Framlögin hækkuð um 25 prósent

Meirihluti Reykjavíkurlistans í menntaráði kynnti í gær tillögur um aukin framlög til einkarekinna grunnskóla. Formaður menntanefndar vonast til að sátt náist nú um málið en fulltrúi sjálfstæðismanna í nefndinni segir að ekki sé nægilega langt gengið með tillögunni. Nái tillögurnar fram að ganga munu framlög á hvern nemanda í einkareknum grunnskólum hækka um fjórðung, úr rúmlega 330.000 krónum í 413.123 krónur. Meirihlutinn telur að með framlagi borgarinnar ásamt hóflegum skólagjöldum nemi tekjur skólanna á hvern nemanda svipaðri upphæð og meðalkostnaður á nemanda í borgarreknum grunnskóla. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fulltrúi sjálfstæðismanna í menntaráði, segir að þótt í tillögunum felist ákveðin hækkun gangi þær ekki nógu langt. "Við teljum að öll börn óháð því hvert þau sækja nám eigi að fá sama framlag." Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs bendir hins vegar á að forráðamenn allra einkareknu skólanna séu ánægðir með tillögurnar. "Ég vona að nú sé þessari framhaldssögu lokið. Nú segir maður bara gleðilegt sumar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×