Innlent

Skotárás á ungan pilt við Akureyri

Sautján ára piltur varð fyrir skotárás skammt frá Akureyri síðastliðinn laugardag. Talið er að skotið hafi verið á hann um ellefu skotum úr loftbyssu og sex skotum úr annars konar byssu. Tvær byssukúlur voru fjarlægðar úr piltinum með skurðaðgerð á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Tveir menn voru handteknir vegna málsins. Annar var úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald en hinum var sleppt eftir að hafa játað sinn þátt hjá lögreglunni á Akureyri í gær. Samkvæmt framburði piltsins tóku tveir menn hann upp í bíl og óku með hann langt norður gamla Vaðlaheiðarveginn þar sem honum var sagt að fara úr bifreiðinni. Þar segir hann annan mannanna hafa dregið upp byssu og skotið á hann sex skotum. Því næst var honum skipað að afklæðast og eftir það hafi sex öðrum skotum verið skotið á hann. Pilturinn þurfti að gangast undir skurðaðgerðir daginn eftir þar sem fjarlægja þurfti úr honum tvær byssukúlur. Hann vildi í fyrstu ekki skýra frá því hverjir hefðu verið þarna að verki né hvers vegna. Vöknuðu því grunsemdir um að þarna hafi verið um afleiðingar fíkniefnaviðskipta að ræða. Í fyrradag handtók síðan lögreglan tvo menn sem grunaðir eru um verknaðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×