Innlent

Æfa viðbrögð við hópslysi

Fjölmenn almannavarnaæfing hefur staðið yfir í Hvalfjarðargöngunum frá því snemma í morgun og er göngunum lokað af þeim sökum. Marinó Tryggvason öryggisfulltrúi Spalar segir afar mikilvægt að fá tækifæri til að æfa viðbrögð yrði hópslys í göngunum. Í dag verði æft þegar rúta og fólksbíll aki saman í göngunum og þriðji bíll keyri á vegg þegar hann reyni að forðast að aka á hina bílana tvo. Um 200 manns taka þátt í æfingunni og aðspurður segir Marinó heilmikið mál að skipuleggja æfingu sem þessa. Spurður hvers vegna æfingin sé ekki haldin að nóttu til þannig að umferð raskist sem minnst segir Marinó að æfingin sé byggð upp að stórum hluta á sjálfboðaliðum eins og björgunarsveitum og  það henti betur að fá þá yfir daginn. Marinó hefur ekki orðið var við óánægju vegfarenda vegna æfingarinnar og telur að fólk sýni henni fullan skilning. Gert er ráð fyrir að göngin verði opnuð fyrir umferð að nýju klukkan þrjú í dag en þangað til verður að sjálfssögðu hægt að aka fyrir Hvalfjörðinn eins og aðra daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×