Innlent

Banna kveikjara í flugi

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa lagt bann við því að einstaklingar hafi sígarettukveikjara á sér eða í handfarangri í flugi til og frá Bandaríkjunum. Bannið sem gildir um allar tegundir kveikjara tók gildi í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugmálatjórn á Keflavíkurflugvelli. Þar segir einnig að um langt skeið hafi verið í gildi bann í öllum löndum við að flytja kveikjara í farangri sem fer í farangurslestir flugvéla en nú nær bannið einnig til kveikjara í farþegarými til og frá Bandaríkjunum. Stjórn samgönguverndar í Bandaríkjunum (US Transportation Security Administration) hefur gefið út fyrirmæli um að þetta bann eigi við um allt flug til og frá Bandaríkjunum í loftförum innlendra sem erlendra flugrekenda. Þar er einnig áréttað að stranglega er bannað að hafa kveikjara í lestarfarangri. Farþegum er eindregið ráðlagt að skilja kveikjara og önnur eldfæri eftir heima áður en farið í flug til eða frá Bandaríkjunum og koma þannig í veg fyrir óþarfa tafir í flughöfnum. Brot á reglum um flutning bannaðra hluta getur varðað háum sektum í Bandaríkjunum fyrir þá sem hafa slíka hluti í fórum sínum þegar komið er inn á svæði flugvalla eftir vopnaleit eða um borð í flugvélar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×