Innlent

Sviðsetja slys í Hvalfjarðargöngum

Almannavarnaæfing verður í Hvalfjarðargöngum á laugardaginn kemur og verða göngin því lokuð á milli 8 og 15 af þeim sökum. Í tilkynningu frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Speli kemur fram að ætlunin sé að sviðsetja árekstur þar sem koma við sögu rúta og tveir fólksbílar neðst í göngunum. Tugir manna slasast og kviknar í einum bílanna. Allt að 200 manns taka þátt í æfingunni sem er sú fyrsta sinnar tegundar í veggöngum hérlendis. Markmið almannavarnaæfingarinnar er að láta reyna á viðbragðsáætlun Hvalfjarðarganga sem tók gildi í maí 2004. Þátttakendur í æfingunni eru meðal annars Neyðarlínan, slökkvilið og lögregla beggja vegna Hvalfjarðar, embætti Ríkislögreglustjóra, Sjúkrahús og heilsugæslustöðin Akranesi, Landspítalinn - háskólasjúkrahús, Landhelgisgæslan, björgunarsveitir, Rauði krossinn og Spölur. Að auki koma tugir manna af Akranesi og úr Reykjavík að æfingunni sem leikarar í hlutverkum slasaðra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×