Menning

Lífsstíllinn kallar á jeppa

"Ég ek um á Nissan Double Cab sem hentar mér afskaplega vel þar sem ég er í hestum og veiðiskap," segir Jón Stefánsson, organleikari í Langholtskirkju. Hann segist ekki vera neinn sérstakur jeppakarl en hafi gerst einn slíkur af stakri nauðsyn. "Minn lífstíll kallar á svona bíl," segir Jón og telur upp helstu kosti bílsins. "Mér þykir mjög gott að vera með aðskilið geymslupláss á pallinum, þannig að það berst til dæmis engin lykt inn í sjálfan bílinn. Og svo bilar hann nánast aldrei og eyðir heldur ekki miklu, " segir Jón og telur það ótvíræðan kost. "Þetta er nú ekkert fínn bíll þannig að maður keyrir á honum hvert sem er. Hann kemur manni þangað sem förinni er heitið, hvort sem er í veiðiskap eða eitthvað annað," segir Jón. Hann segist aldrei hafa lent í ógöngum sem hann hafi ekki geta klórað sig út úr sjálfur. "Ég hef aldrei þurft að láta sækja mig, hef alltaf bjargað mér úr þeim vandræðum sem ég hef lent í," segir Jón og kannski það sé vegna þess að hann segist ekki vera neinn torfærukarl og tekur því enga óþarfa áhættu. "Það má eiginlega segja að þetta sé minn draumabíll og ef ég þyrfti að endurnýja myndi ég sennilega fá mér eins bíl," segir Jón að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.