Innlent

Reyndi að feta í fótspor Fischers

Japanskur karlmaður, sem er veill á geðsmunum, reyndi fyrir skömmu að fá íslenskan ríkisborgararétt við komu sína til landsins, og vísaði til þess að Bobby Fischer hefði fengið slíkt. Að sögn Tinnu Víðisdóttur, yfirmanns landamæraeftirlits lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli, var maðurinn með japönsk skilríki í fullu gildi en leitað var í farangri hans í tilviljanakenndu úrtaki. Þar fannst rafmagnstuðbyssa og piparúðabrúsi sem lögrelgumenn nota til að yfirbuga ofbeldismenn og margar konur eru farnar að nota í sjálfsvörn. Þegar hann var spurður hvað hann hygðist gera við þessi tól hér á landi svaraði hann því til að hann ætlaði að verjast árásum bjarndýra. Önnur svör hans voru á svipuðum nótum og var staða hans metin svo að hann gæti ekki bjargað sér sjáfur áfallalaust hér á landi. Var haft samband við japanska sendiráðið hér og í samráði við starfsmenn þess var hann fluttur á geðdeild Landspítalans þar sem hann naut aðhlynningar læknis uns hann var fluttur út aftur í fylgd tveggja lögregluþjóna alveg til Japans. Þar tóku viðeigandi yfirvöld við honum. Mál hans var afgreitt þannig að hann er velkominn til Íslands aftur þegar hann hefur náð fullri heilsu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×