Innlent

Tæp hálf milljón vegna móðurmissis

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til að greiða systkinum tæplega hálfa milljón króna í bætur vegna andláts móður þeirra, sem lést af völdum læknamistaka. Móðir systkinanna lést árið 2001 eftir aðgerð á sjúkrahúsi. Íslenska ríkið viðurkenndi að andlátið yrði rakið til mistaka sem það bæri ábyrgð á. Samkvæmt samkomulagi sem gert var greiddi ríkið börnum konunnar og föður þeirra miskabætur. Systkinin, sem eru rúmlega tvítug í dag, höfðuðu hins vegar mál gegn ríkinu þar sem þau töldu sig eiga rétt til frekari bóta. Bæði voru í skóla þegar móðir þeirra lést og hafði móðir þeirra haft góðar tekjur. Við fráfall hennar misstu þau af framfærslu hennar sem þau áttu lögbundinn rétt til, en systkinin kröfðust samtals rúmlega 450 þúsund króna í frekari bætur. Ríkið krafðist sýknu og taldi ekki heimilt að dæma auknar bætur. Dómurinn féllst hins vegar á kröfur systkinanna þar sem ljóst þótti að móðirin hefði aflað nærri þriðjungs tekna heimilsins. Í dóminum segir að andlát hennar hafi haft í för með sér umtalsvert tekjutap á heimilinu og það hafi óhjákvæmilega bitnað á börnunum og fjárhagur þeirra orðið þrengri. Héraðsdómur dæmdi ríkið til að greiða þeim 450 þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×