Menning

Segir lopapeysur í tísku

Lopapeysur eru móðins segir tískulöggan Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sem tók þátt að velja flottustu peysuna í keppni Áburðarverksmiðjunnar í dag. Lopapeysurnar voru af öllum gerðum og hafði dómnefnd úr vöndu að ráða en úrslit keppninnar verða kynnt á árshátíð sauðfjárbænda á föstudagskvöld. Í dómnefnd ásamt Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra eru Sunneva Hafsteinsdóttir hjá Handverki og hönnun, Védís Jónsdóttir, hönnuður hjá Ístexi, Bryndís Eiríksdóttir hjá Handprjónasambandinu og Jóhannes Sigfússon, formaður Landsambands sauðfjárbænda. Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sætin og fyrir frumlegustu peysuna. Aðspurður hvernig honum litist á peysurnar sagði Guðni að þær væru glæsilegar og reiknaði með að valið yrði erfitt. Honum hefði verið sagt að 60 keppendur hefðu skilað inn lopapeysum þannig að úr vöndu yrði að ráða. Aðspurður hvort hann prjónaði sjálfur sagðist Guðni því miður ekki gera það en konan sín prjónaði fallegar peysur. Guðni sagði listrænt að prjóna og að íslenska ullin væri dásamleg og gæfi mikla möguleika. Sem betur fer væri sauðkindin, ull og ullarpeysan að komast aftur í tísku.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×