Innlent

Eftirgrennslu verður haldið áfram

"Það er enginn greinarmunur gerður á einstaklingum þegar leit sem þessi stendur yfir," segir Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi. Formlegri leit að hinum brasilíska Ricardo Correia Dantas var hætt í fyrrakvöld en um tvö hundruð manns leituðu mannsins þegar mest lét. Þótt um umfangsmikla leit hafi verið að ræða sem margir hafi komið að hafa spurningar vaknað um hvort ekki sé heldur snemmt að hætta leit eftir rúmlega tvo daga. Til samanburðar leituðu flokkar björgunarsveitarmanna að Ítalanum David Paita sem hvarf í Eyjafirði árið 2002 í átta daga áður en formlegri leit var hætt. Hjá Slysavarnarfélagi Landsbjargar fengust þær upplýsingar að það væri einhliða ákvörðun lögreglu á hverjum stað fyrir sig hvenær leit sem þessari væri hætt. Ólafur Helgi segir ekkert óeðlilegt við þessa ákvörðun. Leitað hafi verið á öllum þeim stöðum sem til greina hafi komið, auk þess sem kafarar hafi kannað hafnir án árangurs og því hafi ekki þótt annað fært en hætta leit. Áfram verði þó grennslast fyrir um afdrif Dantas og allar ábendingar kannaðar til hlítar. Ólafur óskar eftir því að allir þeir sem telja sig hafa upplýsingar um Dantas hafi samband við lögreglu sem allra fyrst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×