Innlent

Verði minnst sem mikilhæfs manns

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að Jóhannes Páll páfi annar hafi verið geðfelldur og hlýlegur maður. Hann hafi verið strangur í afstöðu sinni en að hans verði minnst í sögunni sem mjög mikilhæfs manns.

Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra þegar Jóhannes Páll páfi annar heimsótti Ísland þann 3. júní 1989. Hann tók á móti páfa á Keflavíkurflugvelli. Hann minnist þess að það hafi verið kuldalegt þann dag en páfi hafi lotið niður og kysst íslenska grundu. Þeir hafi aftur hist á Bessatöðum og þar hafi hann komið Steingrími fyrir sjónir sem mjög hlýlegur maður, hann hafi ekki sagt mikið en það sem hann hafi sagt hafi verið hlýlegt.

Jóhannes Páll páfi annar sat á páfastóli í 26 ár. Steingrímur telur að arfleifð páfa í mannkynssögunni verði mikil. Hann segir páfa hafa verið mjög iðinn. Hann hafi ferðast mikið og komið í flest lönd. Steingrímur telur enn fremur að hans verði minnst sem strangs páfa sem ekki hafi gefið eftir. Það telji hann miður því að hans mati þurfi trúin að breytast með tímanum. Steingrímur segir að lokum að hans verði minnst sem mjög miklhæfs páfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×