Innlent

Lögreglumenn búi við óvissu

Lögreglumenn búa við algera óvissu um hvernig þeim beri að haga störfum sínum eftir að lögreglumaður var dæmdur fyrir að hafa ekið í veg fyrir ökumann bifhjóls til að stöðva hann. Þetta segir framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna. Lögreglumaðurinn var dæmdur til sektar og skaðabótagreiðslna í fyrradag fyrir að hafa ekið í veg fyrir ökumanns bifhjóls með þeim afleiðingum að bifhjólamaðurinn kastaðist í götuna og slasaðist. Dómurinn segir lögregluþjóninn hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi en Páll E. Winkler, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna, segir niðurstöðuna ekki í samræmi við málavöxtu. Landssambandið telji að niðurstaða dómsins hafi verulega mikil áhrif á réttarstöðu lögreglumanna og sé á því að lögreglumaðurinn hafi í þessu tilviki hagað störfum sínum algerlega í samræmi við verklag sem tíðkast hafi hingað til. Dóminum var áfrýjað samdægurs til Hæstaréttar en á heimasíðu Landssambands lögreglumanna eru lögreglumenn í tilefni þessa dóms hvattir til að sýna sérstaka gát við vinnu sína á meðan alger óvissa ríki í þessum efnum. Páll segir að meiningin með þessum skilaboðum sé einföld. Verði þessi niðurstaða endanleg sé ljóst að lögreglumenn búi við algjöra óvissu um það hvernig þeir eigi að haga störfum sínum þegar ökumaður bifhjóls eða annars ökutækis sinnir ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Lögreglumenn viti hreinlega ekki hvar mörkin liggi, þeir hafi talið sig vitað það en niðurstaða dómsins sé önnur og þar af leiðandi séu lögreglumenn beðnir um að fara varlega. Aðspurður hvort landssambandið sé sannfært um að umræddur lögreglumaður hafi starfað innan þeirra starfsregnla sem honum séu settar játar Páll því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×