Innlent

Fíkniefnahundur vanræktur

Fíkniefnahundur var tekinn af lögreglumanni í Borgarnesi vegna vanrækslu fyrir skömmu. Hundurinn þurfti meðhöndlun dýralæknis eftir vistina en hann hafði verið lokaður inni og hafði ekki komist út til að gera þarfir sínar. Theodór Þórðarson, yfirlögregluþjónn í Borgarnesi, segir rétt að lögreglumaður í hans umdæmi hafi ekki staðist próf sem þjálfari fíkniefnahunds. Hundurinn hafi því verið tekinn í umsjón yfirhundaþjálfara ríkislögreglustjóra. Hann segir kæru ekki hafa verið lagða fram vegna málsins og vill ekki fara nákvæmlega út í hvernig málið hafi verið í heild þar sem það sé ekki í höndum hans umdæmis. Hundurinn, sem er af gerðinni springer spaniel, var illa haldinn og hafði meðal annars fengið sýkingu vegna vanrækslunnar samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2. Hundurinn hafði verið lokaður inni tímunum saman án þess að hugsað hefði verið um að hleypa honum út til að gera þarfir sínar og lá hundurinn því í eigin hlandi og saur. Theodór segir fíkniefnahunda reglulega senda í þjálfun til lögreglumanna og að þjálfunartímanum liðnum þurfi bæði lögreglumaðurinn og hundurinn að taka próf sem bæði hundur og lögreglumaður geti fallið frá. Á hann von á því að hundinum verði komið til lögreglumanns sem hafi staðist slíkt próf en hafi ekki hund.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×