Innlent

Lögreglumaður dæmdur

Lögreglumaður hefur verið dæmdur til að greiða 200 þúsund krónur í sekt og ökumanni bifhjóls 195 þúsund krónur í skaðabætur fyrir að hafa stefnt lífi hans í hættu í lok maí á síðasta ári. Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Lögreglumaðurinn var að leita manna á bifhjólum um nótt í maí. Skammt frá bensínstöð Essó á Ægisíðu ók hann lögreglubíl í veg fyrir bifhjól sem var á leið í austur. Dómurinn telur sannað að lögreglubílnum hafi verið ekið á rangan vegarhelming í þeim tilgangi að stöðva bifhjólið. Vegna þessa ók bifhjólið á lögreglubílinn og ökumaður þess kastaðist af hjólinu og yfir bílinn. Hann slasaðist nokkuð við áreksturinn. Eftir slysið hefur hann verið með verki í handlegg, baki, hálsi og höfði og hefur hann þurft að taka bólgueyðandi lyf við þessum meiðslum og gangast undir sjúkraþjálfun. Um neyðarakstur lögreglubíla gilda sérstakar reglur. Dómurinn telur að lögreglumaðurinn hafi ekki fylgt þeim heldur af stórfelldu gáleysi stefnt ökumanni bifhjólsins í augljósa og verulega hættu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×