Innlent

Braut lög um skjaldarmerkið

"Strangt til tekið er þarna um brot á lögum um skjaldarmerkið að ræða og ráðuneytisstjóri hefði að mínu mati átt að taka fram fyrir hendurnar á fólkinu," segir Sigurður Líndal lagaprófessor. Í fyrsta bindi bókar um sögu Stjórnarráðsins sem nýlega kom út má sjá hópmynd af starfsfólki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í bolum merktum skjaldarmerki Íslands en slíkt er bannað samkvæmt lögum. Sigurður Líndal segir ósmekklegt að slíkt líðist enda séu lögin skýr um skjaldarmerkið og engar undantekningar leyfðar. "Í tólftu grein fánalaganna er skýrlega kveðið á um að notkun ríkisskjaldarmerkisins sé einkenni stjórnvalda ríkisins og notkun þess þeim einum heimil. Ég sé ekki að starfsfólkið falli undir þessa skilgreiningu og finnst lítil virðing sýnd með þessu tiltæki." Brot á lögum um íslenska fánann eða skjaldarmerki varða sektum eða allt að eins árs fangelsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×