Innlent

Grunur um íkveikju í Árbæ

"Ég var að fara niður að þvo en kem þá að þvottinum í ljósum logum," sagði Vigdís Hulda Vignisdóttir, íbúi í fjölbýlishúsi í Rofabæ þar sem eldur varð laus í sameiginlegu þvottahúsi í kjallaranum. Að sögn slökkviliðsmanna leikur grunur á að um íkveikju sé að ræða. Hulda og aðrir íbúar segjast hafa heyrt í einhverjum fyrir utan rétt eftir að eldsins var vart. Aðrir íbúar sem Fréttablaðið náði tali af segja að oft hafi krakkar úr Árbæjarskóla verið þarna fyrir utan og jafnvel inni á gangi að reykja. Hafa íbúar oftsinnis þurft að hafa afskipti af þeim. "Nágranni minn á fyrstu hæð kom fljótlega að með slökkvitæki og reyndum við að slökkva þetta en allt fylltist fljótlega af reyk svo við urðum frá að hverfa án þess að ráða við neitt, " bætti Hulda við. Að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins eru reykskemmdirnar í kjallaranum töluverðar og fer nú fram rannsókn á tildrögum brunans. Allur stigagangurinn fylltist af reyk og töluverður fnykur var í flestum íbúðum. Slökkviliðið var fljótt á vettvang og gekk greiðlega að slökkva eldinn og reykræsta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×