Innlent

Umferð mikil en gekk að mestu vel

Umferðin var nokkuð mikil á þjóðvegum landsins nú um páskana en hún gekk að mestu vel. Margir notuðu páskafríið til ferðalaga og var umferð á þjóðvegum landsins mikil enda færð og veður með besta móti. Sigurður Helgason hjá Umferðastofu hefur fylgst með umferðinni um síðustu daga. Hann segist hafa verið í sambandi við lögreglu víða um land og frést hafi af einu alvarlegu slysi, við Gufuskála á Snæfellsnesi, en þar fyrir utan séu engar fregnir af slysum og tiltölulega fáar fréttir af óhöppum sem sé mjög gleðilegt. Aðspurður hvar umferðin hafi verið mest segir Sigurður það hafi verið í kringum þá staði þar sem sérstakar samkomur hafi verið. Lögreglan á Ísafirði hafi sagt að mikil umferð hafi verið þar í nágrenninu og þar hafi hún verið með eftirlit og kannað ástand ökumanna. Þá hafi verið töluverð umferð í kringum Akureyri og þar hafi verið mikil umferð í gær. Því dreifist umferðin meira en oft áður þegar fríið sé langt. Sigurður segir enn fremur að töluverð umferð hafi verið í Borgarfirði en heldur minni í Árnessýslu en oft áður. Alltaf eru einhverjir sem ekki virða umferðarlögin og er algengast að fólk aki of hratt, spenni ekki bílbeltin og tali í farsíma á ferð. Sigurður segir fjölmörg brot koma upp þegar eftirlitið sé meira en um venjulega helgi. Aðspurður hvað þeir sem ekki séu lagðir af stað heim eigi að hafa í huga segir Sigurður að þeir verði að gefa sér góðan tíma, gæta að hraðanum og fara mjög gætilega í framúrakstur og reyni hann ekki nema þeir séu fullkomlega vissir um að þeir komist heilu og höldnu fram úr bílnum án þess að hitta fyrir einhvern sem komi á móti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×