Innlent

Fischer tók daginn snemma

Bobby Fischer tók daginn snemma og fór í gönguferð, þrátt fyrir að hann væri örþreyttur eftir langt ferðalag frá Japan, en hann kom loksins til landsins með íslenskt vegabréf og íslenskt ríkisfang seint í gærkvöld. Einkaflugvél lenti með hann á Reykjavíkurflugvelli laust upp úr klukkan ellefu. Með Fischer í vélinni komu Sæmundur Pálsson vinur hans, unnusta hans, Miyoko Watai, Páll Magnússon, fréttastjóri Stöðvar 2, og heimildarmyndargerðarmenn. Fischer var sleppt úr fangelsi í Japan kvöldið áður þar sem hann hafði mátt dúsa í tæpa níu mánuði. Fjöldi fólks tók á móti honum á flugvellinum, bæði fjölmiðlafólk og velunnarar. Svo var honum ekið á Hótel Loftleiðir þar sem hann gisti í nótt. Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður Stöðvar 2 og Bylgjunnar, fékk einkaviðtal við Fischer á flugvellinum hálftíma eftir að hann lenti. Þar sagðist Fischer ánægður með að vera kominn til landsins að honum þætti vænt um að fjöldi manns kæmi til að fagna honum á flugvellinum, einkum þar sem orðið var áliðið, en hann hefði svo sem ekki átt von á öðru. Nú ætlaði hann að hvílast og með tímanum myndi hann skýra frá að það væru ósannindi, runnin undan rifjum leyniþjónustunnar í Bandaríkjunum, að hann hefði ekki viljað tefla hér á landi á sínum tíma. Hægt er að sjá viðtalið við Fischer með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×