Innlent

Pólverjar teknir án atvinnuleyfis

Þrír Pólverjar, sem reyndust vera án atvinnuleyfis í vinnu á hérlendis, voru yfirheyrðir af lögreglunni á Selfossi í gær. Eftir því sem Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður tjáði Fréttablaðinu hófst málið með því að lögreglan á Selfossi stöðvaði í gærmorgun um kl. 9 bifreið fyrir of hraðan akstur á Skeiðavegi í Árnessýslu. Íslenskur ökumaður reyndist vera með útrunnin ökuréttindi og vildi þá fela farþega sínum, Pólverja í vinnufötum, akstur bifreiðarinnar. Voru þeir færðir á lögreglustöð á Selfossi til yfirheyrslu. Málið vatt upp á sig og voru tveir Pólverjar sem dvöldust í Rangárvallasýslu  einnig færðir til yfirheyrslu. Íslendingur sem hýsti þá kom á lögreglustöð og veittist að lögreglumanni. Var hann færður í fangaklefa og síðan yfirheyrður þegar ró færðist yfir hann. Samkvæmt upplýsingum sýslumanns á Selfossi hefur einn Pólverjanna komið alls fjórum sinnum til Íslands og dvalist hér tæpa þrjá mánuði hvert sinn. Annar var hér í annað sinn og sá þriðji í fyrsta skipti. Þeir eru allir grunaðir um að hafa starfað hér án tilskilinna atvinnuleyfa. Íslendingurinn er grunaður um brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lög um útlendinga. Málið verður nú sent Útlendingastofnun til meðferðar en búast má við að ákært verði fyrir meint brot á lögunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×