Innlent

Vonbrigði segir viðskiptaráðherra

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra segir það mikil vonbrigði að kona skyldi ekki ná kjöri til setu í aðalstjórn Sparisjóðabanka Íslands.  Valgerður hvatti til þess fyrir aðalfund Sparisjóðabankans fyrir helgina að fleiri konur yrðu kjörnar til þess að sitja í stjórnum sparisjóðanna, en einungis ein kona er í stjórnum þeirra og af tuttugu og þremur sparisjóðsstjórum eru bara þrjár konur. Ein kona gaf kost á sér til setu í aðalstjórn Sparisjóðabankans en náði ekki kjöri. Valgerður segir þetta mikil vonbrigði því konan hafi mikla reynslu og sé mjög hæf til stjórnarsetu. Í fyrsta lagi sé enginn karlanna í stjórninni reiðubúinn að stíga til hliðar og í öðru lagi standi þeir saman og kjósa hvern annan svo konan komst ekki að. Valgerður segist hingað til ekki hafa viljað grípa til sérstakra aðgerða til þess að fjölga konum í stjórnum sparisjóðanna en hún áformi að skoða málin í kjölfar niðurstöðu aðalfundar Sparisjóðabankans. „Það er sannað mál að það skipti máli að það sé ákveðin breidd í stjórnum fyrirtækja ... Þetta snýst því ekki um að miskunna sig yfir konur,“ segir Valgerður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×