Innlent

Fundarstjórn Halldórs gagnrýnd

Fundarstjórn Halldórs Blöndal forseta Alþingis og skipulag óundirbúinna fyrirspurna var harðlega gagnrýnd í gær. Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði algjörlega óþolandi að Frjálslyndi flokkurinn skyldi ekki hafa fengið að koma með óundirbúna fyrirspurn um lífeyrissjóðina á þinginu. "Mér er misboðið," sagði Sigurjón. Fjórir þingmenn voru með óundirbúnar fyrirspurnir, þar af voru tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði meðal annars Geir H. Haarde fjármálaráðherra úti í það hvort ríkið væri að greiða niður gjaldfrjálsan leikskóla Reykjavíkurborgar. Helgi Hjörvar sagðist hafa viljað spyrja Geir út í þetta mál en ekki fengið það. Hann sagði undarlegt þegar þingfundir væru oðnir framhald á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins og baðst undan innanflokksleikritum Sjálfstæðisflokksins. Halldór Blöndal sagði Frjálslynda flokkinn ekki hafa óskað eftir því að vera með fyrirspurn því væri lítið sem hann gæti gert. Sigurjón mótmælti þessari staðhæfingu. Halldór sagði að ef þingmenn væru ósáttir við skipulag óundirbúinna fyrirspurna gæti hann látið gera úttekt á því hvort hann væri sérstaklega að hygla sínum flokksmönnum undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×