Innlent

Eins og fangabúðir nasista

Sjálfsstjórnarsvæði Palestínumanna eru eins og fangabúðir og meðferðin minnir helst á meðferð nasista á gyðingum, segir Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður sem er á ferð í Miðausturlöndum.  Magnús er á ferðalagi ásamt fleiri þingmönnum í Ísrael og á sjálfsstjórnarsvæði Palestínumanna. Fram hefur komið í fréttum að ísraelskir landnemar á svæðum Palestínumanna grýttu þingmennina um helgina en þeir sluppu ómeiddir. Magnús Þór lýsti því hvernig sjálfsstjórnarsvæðin koma honum fyrir sjónir í þættinum Ísland í bítið á Stöð 2 í morgun. Hann sagði að sér hefði brugðið að sjá þær aðstæður sem Palestínumenn lifðu við á hernumdu landi. Ísraelsmenn séu með vopnaða hermenn úti um allt, varðstöðvar og vegatálma og banni Palestínumönnum að koma og fara á ákveðna. „Þeir eru í raun og veru að girða af vesturbakka Jórdanár sem er mjög stórt landssvæði og hluti af Palestínu. Þar er engum fært yfir nema fuglinum fljúgandi - þar verða gaddavírsgirðingar, jarðsprengjubelti, ljóskastarar og myndavélar. Þetta minnir allt mjög óþægilega á fangabúðir nasista í Síðari heimsstyrjöldinni. Það er eins gott að segja það hreint út ... Það er ansi stutt skammtímaminnið í Ísraelsmönnum og gyðingum sem þurftu að ganga í gegnum þær hörmungar þegar þeir virðast vera farnir að beita sömu aðferðum gegn frændum sínum og nágrönnum, Palestínumönnum,“ sagði Magnús Þór. Fréttastofan hafði samband við Guðjón A. Kristjánsson og innti hann eftir því hvort að orð Magnúsar lýstu stefnu flokksins. Guðjón vildi ekki tjá sig um það og sagði Magnús lýsa upplifun sinni á þeim stað sem hann væri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×