Menning

Drengir í danskennslu

Strákar úr Hlíðaskóla lögðu sig alla fram í danskennslu hjá Íslenska dansflokknum í dag, en boðið var upp á kennsluna til að vekja áhuga þeirra á nútímadansi. Strákar í níunda og tíunda bekk Hlíðarskóla hafa verið við æfingar hjá Íslenska dansflokknum í gær og í dag. Dansflokkurinn hafði frumkvæði af verkefninu sem er ætlað til að hvetja íslenska stráka til að kynna sér nútímadans. Katrín Hall, listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins, segir að markmiðið sé að virkja þann áhuga sem flokkurinn finni fyrir í samfélaginu og sé vaxandi. Hún segir aðspurð að það vanti karlmenn í dans og mikilvægt sé að fá þá inn á þessum aldri og virkja áhugann sem hún telji vera fyrir hendi. Hún telur að dansflokknum hafi tekist að vekja áhuga strákanna á þeim tveim dögum sem æfingar hafi staðið yfir. Strákunum virtist líka nokkuð vel það sem dansflokkurinn bauð upp á þótt það hafi ekki verið alveg eins og þeir áttu von á. Birkir Blær Ingólfsson, einn þeirra, segir að dansinn hafi verið erfiðari en hann hafi búist við en engu að síður mjög skemmtilegur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×