Innlent

Gerðu þrettán tölvur upptækar

Þrettán tölvur sem innihalda barnaklám voru teknar í leit í húsum í Reykjavík, Kópavogi og á Akureyri í gær. Lögregluembættin samræmdu aðgerðir sínar og hófu leit á sama tíma en upplýsingar þessa efnis höfðu borist frá finnsku lögreglunni í lok febrúar. Átta tölvur, diskar og myndbandsspólur voru teknar í leit í þremur húsum í Reykjavík og voru þrír handteknir og yfirheyrðir þar sem töluvert af barnaklámi fannst. Í Kópavogi var gerð leit í einu fyrirtæki þar sem lagt var hald á þrjár tölvur. Leitað var í einu húsi á Akureyri og tók lögreglan tvær tölvur í sína vörslu. Rannsóknir á málunum í Kópavogi og á Akureyri eru skammt á veg komnar og hefur enginn verið handtekinn vegna þeirra. Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir leitina í húsunum þremur í Reykjavík hafa tekist vel. Lögreglan í Finnlandi hafi verið að rannsaka barnaklámsmál þar í landi og þá hafi komið ljós tengingar við Ísland. Þessar upplýsingar hafi borist lögreglunni í gegnum Ríkislögreglustjóra og farið hafi verið aðgerðir á þremur stöðum í gær og þær hafi borið árangur. Hörður segir að þrír menn á þrítugsaldri hafi verið teknir til yfirheyrslu og að lögreglan telji sig hafa náð utan um málið. Hörður segir ekki grun um það hér á landi að börn hafi verið beitt kynferðisofbeldi í þessum málum. Aðspurður hvernig rannsókninni miði segir hann að hún sé langt komin. Brot mannanna felist í því að hafa barnaklám í sinni vörslu en eftir eigi að skoða tölvurnar betur til þess að komast að því um hversu mikið magn sé að ræða. Þetta hafi fyrst og fremst verið myndir á tölvutæku formi, myndir sem sóttar hafi verið á Netið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×