Innlent

Fá undanþágu til uppskiptingar

Samkeppnisstofnun hefur veitt Olíufélaginu, Olíuverzlun Íslands og Skeljungi undanþágu frá samkeppnislögum til þess að skipta upp bensínstöðvum sem félögin ráku saman úti á landi. Um er að ræða bensínstöðvar í Ólafsvík, Stykkishólmi, Þorlákshöfn og á Hvammstanga, Fáskrúðsfirði, Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri, Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði. Í ákvörðun samkeppnisráðs í tengslum við ólögmætt samráð félaganna var þeim fyrirmælum beint til félaganna að hætta samrekstri á bensínstöðvum og samvinnu því tengdri. Olíufélögin sendu í kjölfarið Samkeppnisstofnun bréf í lok nóvember á síðasta ári þar sem þau tilkynntu að þau hefðu samið um að skipta á milli sín þeim bensínstöðvum sem væru í sameiginlegri eigu tveggja eða þriggja olíufélaga. Fóru þau fram á að veitt yrði undanþága á bannákvæðum 10. greinar samkeppnislaga ef úrskurðað yrði að uppskiptingin bryti í bága við samkeppnislög. Samkeppnisstofnun úrskurðaði að samkomulagið um skiptingu stöðvanna stríddi gegn samkeppnislögum en veitti félögunum undanþágu frá ákvæðum laganna þar sem hún vænti þess að samkeppni eflist á þeim markaðssvæðum bensínstöðva sem samreknar eru eftir skiptinguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×