Innlent

Slysalaust fram undir lok febrúar

Umferðin hefur tekið sinn toll síðustu vikurnar en hvert banaslysið á fætur öðru hefur orðið á vegum landsins á örskömmum tíma. Banaslys hafa orðið í vélsleðaslysi við Veiðivötn, á Snorrabraut, Kópaskeri og það síðasta varð á Suðurlandsvegi nú um helgina. Sigurður Helgason, verkefnastjóri hjá Umferðarstofu, segir að nokkur slys hafi orðið á vegamótum Þrengslavegar og Suðurlandsvegar. "Slysið á sunnudaginn átti sér hins vegar stað á Þjóðvegi 1 í mikilli hálku. Ég held að fólk lesi ekki rétt í aðstæðurnar og ætti kannski að velta fyrir sér ábyrgðinni sem felst í að vera í umferðinni og virðingunni sem maður þarf að bera fyrir umhverfinu og hálkunni," segir Sigurður. "Gatnamótin við Þrengslaveg eiga að leggjast af. Búið er að bjóða verkið út og stefnt er að því að klára framkvæmdir fyrir haustið. Þetta er bölvuð ólánsbeygja," segir Páll Halldórsson, rekstrarstjóri hjá Vegagerðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×