Erlent

Stjórnarmyndun í skugga ofbeldis

31 týndi lífi í Írak í hryðjuverkaárásum víðs vegar um landið og tugir manna særðust. Á meðan halda stjórnarmyndunarviðræður áfram af fullum krafti. Mannskæðustu árásirnar áttu sér stað í bænum Baqouba sem er rétt norðaustur af Bagdad. Þar fórust 15 manns í nokkrum tilræðum. Öflug bílsprengja sprakk í nágrannabænum Balad og dóu tólf vegfarendur í sprengingunni. Fjórir biðu bana í Bagdad í skotárás uppreisnarmanna. Ofbeldishrinan brast á degi eftir að sigurvegarar kosninganna í síðasta mánuði settu sér það takmark að ljúka við að mynda stjórn fyrir 16. mars. Samkomulag hefur náðst um að Kúrdinn Jalal Talabani verði forseti landsins en sjíinn Ibrahim al-Jaafari verði forsætisráðherra. Líkur eru á að súnníinn Ghazi al-Yawer, bráðabirgðaforseti landsins, taki við embætti þingforseta. Eftir á þó að semja um mikilvæg málefni, eins og kröfur Kúrda um að fá yfirráð yfir borginni Kirkuk og nágrenni hennar en þar er að finna auðugar olíulindir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×