Innlent

Erfitt að keppa við skattsvikara

Garðar Kjartansson, eigandi skemmtistaðarins Nasa í Reykjavík, fagnar húsleit skattrannsóknarstjóra hjá hátt í tuttugu vínveitingastöðum. Garðar segir að svört starfsemi sé þekkt í geiranum og erfitt sé fyrir þá, sem vilji vera heiðarlegir, að keppa við þá sem svindla. Skattrannsóknarstjóri gerði fyrir helgina fyrirvaralausa húsleit hjá um tuttugu vínveitingastöðum vegna rökstudds gruns um stórfelld skattsvik, auk gruns um fíkniefnadreifingu og jafnvel vændisstarfsemi. Þetta er umfangsmesta aðgerð embættisins síðan húsleit var gerð hjá olíufélögunum. Garðar Kjartansson, eigandi skemmtistaðarins Nasa við Austurvöll sem ekki er í þeim hópi sem skattrannsóknarstjóri gerði húsleit hjá, og hann kveðst feginn því að tekið sé á vandanum. Hann nefnir sem dæmi að þegar Nasa auglýsti á dögunum eftir starfsfólki þá hafi helmingur umsækjenda spurt hvort greitt yrði svart en hann hafi svarað að borgað yrði eftir stimpilklukku. Garðar segir fólk sem vinni á veitingastöðum yfirleitt vera í annarri vinnu á daginn eða í skóla og þyki súrt að borga 40% í skatt. Freistandi sé því fyrir veitingahúsaeigendur að borga fólkinu svart. „En þetta er bara ekki löglegt,“ segir Garðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×