Innlent

Gefa út falsaða reikninga fyrir fé

Dæmi eru um að menn taki þóknun fyrir að gefa út falsaða launareikninga í þeim tilgangi að leika á skattayfirvöld. Mennirnir sem eru til rannsóknar eru grunaðir um að gefa út reikningseyðublöð fyrir einstaklinga gegn þóknun. Dæmi eru um að sá sem gefi út reikningana taki allt að tíu prósent af launum þeirra sem hann gefur út reikninga fyrir. Einnig eru dæmi um að einstaklingar selji óútfyllt og fölsuð reikningseyðublöð til aðila sem þurfa á þeim að halda. Með þessu er verið að falsa bókhald og búa til skjöl og gögn sem eiga að sýna rekstrargjöld og innskatt sem ekki er fótur fyrir. Slíkar falsanir er t.d. að finna í byggingarstarfsemi, fiskvinnslu og ýmiss konar þjónustustarfsemi. Skúli Eggert Þórðarsson skattrannsóknarstjóri vildi ekki veita Stöð 2 viðtal vegna málsins en sagði í samtali við fréttastofu að starfsemi sem þessi hefði verið stunduð í mörg ár en væri meira viðloðandi sumar stéttir en aðrar. Sagði hann að oft væru þessir aðilar með áætlanir skatta á bakinu og að þeir sem um ræddi væru oft án heimilisfangs og skattyfirvöld ættu því í vandræðum með að finna þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×