Erlent

1500 bandarískir hermenn fallnir

Meira en fimmtán hundruð bandarískir hermenn hafa nú týnt lífi í Írak en mannfall óbreyttra borgara er í það minnsta tífalt meira. Tvær bílsprengjur sprungu í landinu í gær og fórust þrír í tilræðunum. Neyðarlög munu ríkja áfram í landinu. Þrír bandarískir hermenn dóu í gær í átökum við uppreisnarmenn í Írak. Þar með hafa meira en 1500 bandarískir hermenn farist í landinu síðan innrásin var gerð fyrir tæpum tveimur árum. Síðan Bush Bandaríkjaforseti lýsti því yfir 1. maí 2003 að stríðinu væri lokið hafa 1.364 dáið, þar af 1.030 í átökum. Búast má við að þrýstingur á stjórnina um að kalla hermennina heim muni vaxa ennþá meira enda er nú allt kapp á að þjálfa íraskar öryggissveitir svo þær geti tekið við löggæslu í landinu. Enn eru yfir 120.000 bandarískir hermenn í Írak. Engar nákvæmar tölur eru til yfir mannfall óbreyttra borgara síðan innrásin var gerð. Í haust áætlaði læknaritið Lancet að í það minnsta 100.000 manns hefðu farist en aðrar áætlanir gera ráð fyrir mun minna mannfalli. Breska stofnunin Iraqi Body Count telur að 16.000-18.000 óbreyttir borgarar hafi týnt lífi síðustu tvö árin. Tvær bílsprengjur sprungu fyrir utan innanríkisráðuneytið í Bagdad í gær og fórust að minnsta kosti tveir lögreglumenn og fimmtán særðust. Þá var gerð bílsprengjuárás á lögreglumenn í Baqouba, sextíu kílómetra norður af höfuðborginni, og fórust tveir. Þar af var einn lögreglumaður. Uppreisnarmenn beina spjótum sínum í æ ríkari mæli að íröskum lögreglumönnum og er skemmst að minnast tilræðisins í Hillah á mánudaginn en þá dóu 127 manns sem hugðust sækja um starf í öryggissveitunum. Iyad Allawi, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, tilkynnti í gær að neyðarlög muni gilda í landinu í einn mánuð í viðbót svo að tryggja megi öryggi borgaranna. Þau heimila stjórninni að setja á útgöngubönn og fangelsa fólk án dóms og laga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×