Laugavegurinn og bíóin 28. febrúar 2005 00:01 Það hefur verið hálf hjákátlegt að fylgjast með þeim ramakveinum sem hafa heyrst úr ýmsum hornum þegar loks koma fram hugmyndir sem geta átt þátt í því að blása nýju lífi í verslun og mannlíf við Laugaveginn. Þar á meðal er jafnvel fólk sem hefur ár eftir ár kvartað yfir að borgaryfirvöld standi aðgerðalaus hjá á sama tíma og miðbæ Reykjavíkur fari hnignandi, og þá sérstaklega verslun við Laugaveginn, en sér því nú allt til foráttu að tuttugu og fimm gömul hús, sem eru flest löngu komin á tíma, megi víkja ef eigendur þeirra kjósi að byggja ný í þeirra stað. Ekki hefur verið ákveðið að rífa þessi hús og það leyfi verður ekki gefið nema fyrir liggi teikningar að nýju húsunum sem samræmast hugmyndum okkar daga um hvernig eigi að reisa byggingar inn í gamla götumynd. Allt tal um að sporin hræði, með tilvísun í til að mynda húsið sem var byggt á sínum tíma milli Reykjavíkurapóteks og Hótel Borgar, er bull. Þær hugmyndir sem ríktu í arkitektúr á þeim árum tilheyra liðnum tíma. Miklu nærtækara er að líta til nýjustu húsanna sem hafa verið byggð við Laugaveginn, til dæmis hótelsins sem stendur við Laugaveg 18 og húsin sem voru reist annars vegar og endurbyggð hins vegar á brunarústunum aðeins ofar við Laugaveg, við númer 40 og 42. Þetta eru stásslegar byggingar sem þjóna tvíþættu hlutverki; á götuhæð hýsa þau verslun og þjónustu en þar fyrir ofan eru íbúðir sem fólk vill búa í. Og þar er komið að stórum punkti í allri þessari umræðu. Okkur vantar fleiri íbúa í bæinn, því hvað er miðbær án fólks? Samstaða hefur verið innan borgarstjórnar um fyrirhugaða uppbyggingu við Laugaveginn fyrir utan kröftug mótmæli Ólafs F. Magnússonar, þess ágæta borgarfulltrúa Frjálslynda flokksins. Ólafur setti sig líka upp á móti hugmyndum um niðurrif Austurbæjarbíós, sem virðist því miður eiga að fá að standa áfram. Í því máli sáu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sér leik á borði og hopuðu frá stuðningi við niðurrif bíósins þegar ljóst var að ekki ríkti einhugur innan R-listans um framtíð þess. Var sú framganga borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna til lítils sóma, enda réðu skammtíma pólitískir hagsmunir fremur ferðinni en hagur borgarbúa. R-listinn hafði ekki dug í sér til að klára málið upp á sitt eindæmi og nú stendur Austurbæjarbíó eins og þurs sem varð að grjóti við sólarupprás án þess að nokkur vilji í raun eiga það né reka. Það er líka fullkomlega óljóst hvaða starfsemi eigi að fara þar fram enda ekki eins og okkur skorti samkomuhús í Reykjavík. Í raun er ekkert óeðlilegt að Austurbæjabíó fari sömu leið og önnur kvikmyndahús sem eitt sinn voru í miðbænum. Stjörnubíó er farið, Nýjabíó líka og Tjarnarbíó er löngu hætt að vera bíó og er núna í eigu borgarinnar. Ekki má gleyma Gamlabíói sem er orðið óperuhús. Og vel á minnst, það losnar innan ekki mjög margra ára þegar Íslenska óperan fær inni í tónlistarhúsinu sem á að fara að byggja, og þá þarf að finna því nýtt hlutverk líka. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Jón Kaldal Mest lesið Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun Skjáfíkn - vísindi eða trú? Ásdís Bergþórsdóttir Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Listin að styðja en ekki stýra Árni Sigurðsson Skoðun
Það hefur verið hálf hjákátlegt að fylgjast með þeim ramakveinum sem hafa heyrst úr ýmsum hornum þegar loks koma fram hugmyndir sem geta átt þátt í því að blása nýju lífi í verslun og mannlíf við Laugaveginn. Þar á meðal er jafnvel fólk sem hefur ár eftir ár kvartað yfir að borgaryfirvöld standi aðgerðalaus hjá á sama tíma og miðbæ Reykjavíkur fari hnignandi, og þá sérstaklega verslun við Laugaveginn, en sér því nú allt til foráttu að tuttugu og fimm gömul hús, sem eru flest löngu komin á tíma, megi víkja ef eigendur þeirra kjósi að byggja ný í þeirra stað. Ekki hefur verið ákveðið að rífa þessi hús og það leyfi verður ekki gefið nema fyrir liggi teikningar að nýju húsunum sem samræmast hugmyndum okkar daga um hvernig eigi að reisa byggingar inn í gamla götumynd. Allt tal um að sporin hræði, með tilvísun í til að mynda húsið sem var byggt á sínum tíma milli Reykjavíkurapóteks og Hótel Borgar, er bull. Þær hugmyndir sem ríktu í arkitektúr á þeim árum tilheyra liðnum tíma. Miklu nærtækara er að líta til nýjustu húsanna sem hafa verið byggð við Laugaveginn, til dæmis hótelsins sem stendur við Laugaveg 18 og húsin sem voru reist annars vegar og endurbyggð hins vegar á brunarústunum aðeins ofar við Laugaveg, við númer 40 og 42. Þetta eru stásslegar byggingar sem þjóna tvíþættu hlutverki; á götuhæð hýsa þau verslun og þjónustu en þar fyrir ofan eru íbúðir sem fólk vill búa í. Og þar er komið að stórum punkti í allri þessari umræðu. Okkur vantar fleiri íbúa í bæinn, því hvað er miðbær án fólks? Samstaða hefur verið innan borgarstjórnar um fyrirhugaða uppbyggingu við Laugaveginn fyrir utan kröftug mótmæli Ólafs F. Magnússonar, þess ágæta borgarfulltrúa Frjálslynda flokksins. Ólafur setti sig líka upp á móti hugmyndum um niðurrif Austurbæjarbíós, sem virðist því miður eiga að fá að standa áfram. Í því máli sáu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sér leik á borði og hopuðu frá stuðningi við niðurrif bíósins þegar ljóst var að ekki ríkti einhugur innan R-listans um framtíð þess. Var sú framganga borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna til lítils sóma, enda réðu skammtíma pólitískir hagsmunir fremur ferðinni en hagur borgarbúa. R-listinn hafði ekki dug í sér til að klára málið upp á sitt eindæmi og nú stendur Austurbæjarbíó eins og þurs sem varð að grjóti við sólarupprás án þess að nokkur vilji í raun eiga það né reka. Það er líka fullkomlega óljóst hvaða starfsemi eigi að fara þar fram enda ekki eins og okkur skorti samkomuhús í Reykjavík. Í raun er ekkert óeðlilegt að Austurbæjabíó fari sömu leið og önnur kvikmyndahús sem eitt sinn voru í miðbænum. Stjörnubíó er farið, Nýjabíó líka og Tjarnarbíó er löngu hætt að vera bíó og er núna í eigu borgarinnar. Ekki má gleyma Gamlabíói sem er orðið óperuhús. Og vel á minnst, það losnar innan ekki mjög margra ára þegar Íslenska óperan fær inni í tónlistarhúsinu sem á að fara að byggja, og þá þarf að finna því nýtt hlutverk líka.