Erlent

Á annan tug borgara fallið

Bandaríkjaher hefur nú handtekið meira en hundrað uppreisnarmenn í Anbar-héraðinu í vesturhluta Íraks á nokkrum dögum. Aðgerðir hersins í Anbar hafa staðið í fimm daga og hefur verið lagt hald á mikið magn vopna. Í gær skutu Bandaríkjamenn úr lofti á helstu vígi uppreisnarmanna í héraðinu. Þrír hermenn hafa fallið í valinn í aðgerðunum gegn einu helsta vígi uppreisnarmanna í Írak. Þrettán óbreyttir borgarar særðust þegar fimm sprengjum var varpað að og inn í hús í borginni Samarra í norðurhluta Íraks í morgun. Hvorki liggur fyrir hver tilgangur árásanna var né heldur hver skotmörk þeirra voru. Alla jafna eru það írakska þjóðvarðliðið og lögreglan sem eru skotmörk skæruliða, en þeir eiga það til að fara skotmarkavillt. Stjórnvöld í Sýrlandi neita alfarið sögusögnum þess efnis að þau standi við bakið á uppreisnarmönnum í Írak. Undanfarna daga hafa birst viðtöl við uppreisnarmenn í Írak á arabískum sjónvarpsstöðvum þar sem þeir segjast hafa hlotið þjálfun hjá leyniþjónustu Sýrlands. Í gær var hins vegar haft eftir embættismanni innan leyniþjónustunnar í Sýrlandi að þetta væri fráleitt, enda væri Sýrlendingum mjög umhugað um að stöðugleiki og öryggi næði fram að ganga í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×