Innlent

Sektuð vegna samráðs

Samkeppnisráð dæmdi í dag þrjú tryggingafélög til að greiða 60,5 milljónir króna í sekt vegna ólögmæts verðsamráðs. Félögin sem um ræðir eru Sjóvá-Almennar, Tryggingamiðstöðin og VÍS. Forsaga málsins er sú að í júlí árið 2002 leitaði fyrirtæki sem sér um bifreiðaréttingar- og sprautun til Samkeppnisstofnunar og kvartaði undan nýju kerfi sem tryggingafélögin hefðu tekið um við mat á tjóni. Því var haldið fram að tryggingafélögin ákvæðu einhliða einingaverð vegna þessa og verðið var það sama hjá þeim öllum, sem benti til samráðs. Í ársbyrjun óskaði VÍS eftir að ljúka málinu með sátt og gengið var frá því í janúar og samþykkti félagið að greiða 15 milljónir króna í sekt. Eftir að þetta varð ljóst óskaði Tryggingamiðstöðin eftir því sama og samþykkti að greiða 18,5 milljónir króna í stjórnvaldssekt. Sjóvá-Almennar reyndi ekki sáttaleiðina og ákvað samkeppnisráð í dag að félagið skyldi greiða 27 milljónir króna í sekt. Alls gera þetta 60, 5 milljónir króna í sekt eins og að framan greinir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×