Erlent

Frekari skuldbindingar NATO í Írak

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra situr í þessum töluðum orðum með Bush Bandaríkjaforseta á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel.  Þessi NATO-fundur er hluti af Evrópureisu Bush sem nú þeysir um álfuna þvera og endilanga í tilraun til að jafna ágreininginn sem ríkt hefur á milli Atlantsála allt frá því Bandaríkjastjórn réðist inn í Írak. Bush er einmitt talin ætla að reyna að fá leiðtoga NATO-ríkjanna á fundinum til að taka á sig frekari skuldbindingar í Írak, svipað því og Atlantshafsbandalagið hefur nú gert í Afganistan. Jafnframt er talið að málefni Írans beri á góma á fundinum en Bandaríkjastjórn hefur skilgreint Íran sem eitt helsta útlagaríki heims um þessar mundir. Bush mun síðar í dag hitta alla leiðtoga Evrópusambandsríkja á sérstökum fundi og á dagskránni í dag eru líka einkafundir með Tony Blair, forsætisráðherra Breta, og Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, sem eru einhverjir dyggustu stuðningsmenn Bush í Evrópu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×