Innlent

Vonar að börn sjá ekki myndbandið

Móðir ungs manns sem lést eftir líkamsárás í Hafnarstræti segist ekki skilja hvers vegna fólk dreifi myndum af árásinni á Netinu. Hún vonar að börn sjái ekki þessar myndir. Myndir úr eftirlitsmyndavél lögreglunnar frá aðfararnótt 7. apríl árið 2002, þar sem birtist líkamsárás í miðborg Reykjavíkur sem lauk með því að 22 ára karlmaður beið bana, eru nú í dreifingu á Netinu eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þessar myndir voru meðal sönnunargagna í máli gegn tveimur ungum karlmönnum sem voru dæmdir í þriggja og sex ára fangelsi af Hæstarétti árið 2003. Yfirlögregluþjónn í Reykjavík sagðist í fréttum Stöðvar 2 í gær telja líklegast að árásarmennirnir eða verjendur þeirra hefðu komið myndunum í dreifingu, þær væru ekki frá lögreglu komnar og þjónuðu engan veginn þörfum lögreglunnar. Yfirlögregluþjónninn bætti því við að að sínu mati væri þetta afar ósmekklegt. Þorbjörg Finnbogadóttir, móðir Magnúsar Freys Sveinbjörnssonar sem lést í árásinni, segist ekki skilja tilganginn með því að setja myndbandið í dreifingu. Hún segir að hún hafi farið í kerfi við að frétta af þessu og henni finnist þetta klikkun. Hún skilji ekki að fólk hafi gaman af því að horfa á myndband eins og þetta, en þetta sé ekki leikur heldur hlutir sem hafi gerst í raunveruleikanum. Þorbjörg segist sjálf eiga ungling og 12 ára gamlan strák og sem betur sé sá yngri ekki mikið á Netinu. Hún vonar að börn hafi ekki séð myndbandið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×