Erlent

Erfitt að taka við friðargæslunni

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að erfitt yrði fyrir samtökin að taka við friðargæslu í Írak af Bandaríkjamönnum. Annan var spurður um þetta mál á öryggismálaráðstefnu sem nú stendur yfir í Þýskalandi og leist ekki meira en svo á hugmyndina. Hann útilokaði þó ekki að af þessu gætu orðið. Framkvæmdastjórinn benti á að Bandaríkjamenn hefðu nú mikinn herafla í Írak sem væri búinn bestu vopnum sem til væru. Hann sagði að erfitt yrði fyrir Sameinuðu þjóðirnar að koma sér upp sambærilegu liði og það myndi aðeins gera illt verra ef undirmannað og veikt gæslulið tæki við verkefninu. Annan sagði þó að ef öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tæki ákvörðun um að þetta yrði gert, yrði auðvitað að byrja að vinna í málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×