Innlent

Fékk heilahristing í áflogum

Tilkynnt var um líkamsárás til lögreglunnar á Ísafirði snemma í morgun. Áflog höfðu brotist út milli manna sem slógust í íbúðargötu í bænum. Þau enduðu með því að einn var fluttur á sjúkrahús og talið var að hann hefði fengið heilahristing. Engin kæra hefur enn verið lögð fram og reyndar er óljóst hver réðist á hvern, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Um klukkan fimm í nótt var kona slegin í höfuðið með flösku við skemmtistaðinn Nellys í Bankastræti í Reykjavík. Hún var flutt til aðhlynningar á sjúkrahúsi en árásarmaðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu. Það hefur verið órólegt í miðborginni um helgina samkvæmt lögreglunni. Síðastliðna nótt voru fjórir teknir ölvaðir við akstur, þar af einn sem sá ástæðu til að aka gröfu eftir Hverfisgötunni. Þá barst lögreglunni tilkynning í nótt um að maður íklæddur lögreglubúningi stæði á gatnamótum Vitastígs og Laugavegs og reyndi að stofna til slagsmála. Í fyrstu var talið að um væri að ræða lögreglumann í vanda en annað kom á daginn. Maðurinn hljóp í burtu þegar lögregla kom að. Hann fannst stuttu síðar á skemmtistað við Hverfisgötu. Sjálfur sagðist maðurinn hafa fengið lögreglubúninginn lánaðan hjá búningaleigu Þjóðleikhússins: lögreglujakka, buxur og skyrtu. Á endanum fékk hann þó að reyna meira en að klæðast fatnaði lögreglunnar. Hann fékk allan pakkann - fékk að sitja bæði í bifreið lögreglu og fangageymslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×