Innlent

Gæsluvarðhaldið enn framlengt

Gæsluvarðhald yfir brasilískri konu, sem reyndi að smygla 850 grömmum af kókaíni og um tvö þúsund skömmtum af LSD, var nú í vikunni framlengt til 22. mars. Konan, sem er 26 ára, kom til landsins rétt fyrir jól og við tollleit fannst kókaínið í pakkningum sem huldu nánast læri hennar. Efnunum var það vel komið fyrir að vart mátti greina pakkningarnar þó konan hafi verið í frekar þröngum buxum. Við nánari athugun kom í ljós að hún var með mikinn fjölda smárra taflna falinn í leggöngunum. Við efnagreiningu reyndust töflurnar vera LSD. Konan kom til landsins þann 21. desember og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. Líkur eru taldar á að konan sé burðardýr en enginn annar hefur verið handtekinn vegna málsins. Oft reynist erfitt að hafa upp á eigendum fíkniefnanna vegna þagmælsku burðardýranna og skorts á sönnunargögnum. Við lok rannsóknar á málinu verður það sent Ríkissaksóknara, sem kemur til með að gefa út ákæru á hendur konunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×