Innlent

Mikil mildi að ekki varð stórslys

Mikil mildi þykir að ekki hlaust af stórslys þegar ökumaður, sem ekið hafði á tæplega 200 kílómetra hraða eftir Miklubraut, ók aftan á kyrrstæða bifreið sem í voru fjórir farþegar. Lögreglumenn veittu sportbifreið af Mitsubishi-gerð athygli við Höfðabakka í Reykjavík á þriðja tímanum í nótt. Bifreiðinni var ekið eftir Ártúnsbrekku í vesturátt á ofsahraða og er talið að hún hafi verið á yfir 190 kílómetra hraða um tíma. Lögreglumenn veittu ökumanni eftirför og komu fimm lögreglubílar að málinu. Ökuníðingurinn ók áfram á ofsahraða vestur eftir Miklubraut og dró í sundur með honum og lögreglu. Við gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar ók hann aftan á kyrrstæða Huyndai-bifreið, en fernt var í þeim bíl en ökufanturinn var einn í sínum bíl. Áreksturinn var mjög harður og eru báðir bílarnir taldir gjörónýtir. Öll fimm voru flutt á slysadeild Landspítalans í Fossvogi, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni slasaðist ekkert þeirra alvarlega þrátt fyrir að áreksturinn hafi verið mjög harður. Ökufanturinn var handtekinn og yfirheyrður í dag en sleppt að lokinni yfirheyrslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×