Innlent

Svik upp á sjötta tug milljóna

Fjórmenningarnir sem hlutu dóm í Landssímamálinu svokallaða hafa, ásamt fimmta manni, verið ákærðir fyrir að svíkja undan skatti á sjötta tug milljóna króna með brotum á lögum um virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Málið var þingfest í dag. Ákæran á hendur fimmmenningunum er í mörgum liðum. Þeim Árna Þór Vigfússyni, Kristjáni Ragnari Kristjánssyni, Sveinbirni Kristjánssyni, bróður Kristjáns og fyrrveraandi aðalfélhirði Landssímans, og Ragnari Orra Benediktssyni, frænda þeirra bræðra, er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á tæplega 60 milljónum króna í virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákæran er í fimm liðum og beinast allir ákæruliðirnir að Kristjáni Ragnari, tveir að Árna Þór, einn að þeim Ragnari Orra og Sveinbirni og einn að fyrrverandi framkvæmdastjóra Japis. Meint brot eru vegna fyrirtækjanna Ísafoldarhússins, Japis, Kaffi Le, Lífsstíls og Planet Reykjavíkur. Fjórmenningarnir úr Landssímamálinu voru allir viðstaddir þingestinguna í dag. Þar sem verjandi Árna Þórs var ekki viðstaddur kaus hann að bíða með að tjá sig um sakargiftir, Sveinbjörn og Ragnar Orri neituðu sök og það sama gerði Kristján Ragnar, sem varðandi Lífsstíl viðurkenndi ábyrgð vegna skattskila en sagði umrædda fjárhæð að fullu greidda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×