Innlent

Borgin ætlar í mál

Á fundi borgarráðs á fimmtudag mun Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri leggja fram tillögu um að hafin verði undirbúningur að skaðabótamáli gegn olíufélögunum, vegna ólöglegs samráðs við útboð Reykjavíkurborgar í olíuviðskiptum. Á minnisblaði frá Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hæstaréttarlögmanni sem Steinunn Valdís fékk í gær, kemur fram það álit að borgin eigi þennan rétt og að minnsta kosti í tveimur tilvikum, útboðum sem fram fóru 1996 og 2001 séu mjög miklar sönnur færðar á að Reykjavíkurborg eigi skaðabótarétt vegna samráðsins. Í fyrra útboðinu var óskað eftir tilboðum í sölu á gasolíu, bensíni og steinolíu fyrir Strætisvagna Reykjavíkur, Malbikunarstöðina og Vélamiðstöðina. Í seinna útboðinu var óskað eftir tilboðum vegna Strætó og Vélamiðstöðvarinnar. Að sögn Steinunnar Valdísar verður Vilhjálmi væntanlega falið að undirbúa bótakröfu eftir borgarráðsfundinn á fimmtudag. Slíkur undirbúningur muni taka um fjórar vikur, en þá verði ljóst hvert tjón borgarinnar var vegna samráðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×