Innlent

Megnið af þýfinu komst til skila

"Þegar síminn hringir um miðja nótt veit ég að búið er að brjótast inn," segir Carl Bergmann eigandi úra- og skartgripaverslunar á Laugavegi. Brotist var inn í verslunina í tvígang, í desember og janúar, og hefur lögreglan upplýst innbrotin. Níu menn voru handteknir. Í fyrra innbrotinu voru hringjum og hálsfestum að verðmæti tæplega einnar milljónar króna stolið. Carl segir þjófana hafa sigtað dýrustu gripina frá. Daginn eftir innbrotið voru tveir menn handteknir og megnið af þýfinu fannst. Annar mannanna játaði strax sinn þátt. Skömmu eftir seinna innbrotið voru sjö menn handteknir og eru sex þeirra taldir tengjast málinu. Fyrst voru þrír handteknir og var gerð húsleit í kjölfarið þar sem fjórir til viðbótar voru teknir höndum. Í húsleitinni fannst nokkuð af þýfi úr skartgripaversluninni auk þýfis sem stolið hafði verið í innbroti í fataverslun í miðbæ Reykjavíkur. Carl segir mennina hafa stolið fjörutíu úrum en hann fékk ellefu þeirra til baka. Í kjölfar húsleitarinnar fann lögreglan stolinn bíl sem þjófarnir höfðu í sinni vörslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×