Innlent

Veðurguðirnir voru hliðhollir

"Það má segja að það hafi allt verið okkur til láns í þessu óláni að missa stýrið," sagði Halldór Viðar Guðmundsson, skipstjóri á Dettifossi, en skipið rak stjórnlaust undan veðri og vindum undan suðausturströndinni frá laugardegi til sunnudags. Að sögn Halldórs skipstjóra fóru vindhviður í 33 metra á sekúndu og haugasjór var. "Við vorum komnir nokkuð langt austur af Eystra-Horni á leið til Eskifjarðar þegar bilunarinnar varð vart. Það fyrsta sem við gerðum var að athuga hvort stýrisvélin væri biluð, en þegar í ljós kom að svo var ekki, var ljóst að eitthvað var að stýrinu, það jafnvel farið af. Það kom svo í ljós að um einn meter var eftir af því. Ég hef verið til sjós í 40 ár og aldrei lent í því að vera á skipi sem misst hefur stýrið, hvað þá að það hafi komið fyrir mig sem skipstjóra." Á skipinu eru þrettán menn, allt Íslendingar. "Öll samskipti við Gæsluna voru góð, þar eru menn sem við þekkjum bara af góðu og kunna til verka. Annað skipið hefði aldrei komið okkur til hafnar í þessu veðri." Kafarar hafa skoðað skemmdirnar á stýrisbúnaði Dettifoss. Ómögulegt er að segja til um orsakir þess að Dettifoss varð stýrisvana fyrr en skipið er komið í þurrkví. Halldór segir útilokað að skipið hafi tekið niðri. Ákveðið hefur verið að skipið verði dregið til Rotterdam. Dráttarskipið Primus, sem er öflugt þýskt dráttarskip, dregur Dettifoss og er Primus væntanlegt til Eskifjarðar á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×