Erlent

Enginn ráðherra sagt af eða á

Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi ráðherra, segist ekki muna hvort stuðningur Íslands við innrásina í Írak hafi verið ræddur á ríkisstjórnarfundi 18. mars árið 2003. Þegar ummæli ráðherra Framsóknarflokksins eru skoðuð kemur í ljós að enginn þeirra hefur sagt af eða á um það hvort ákvörðunin hafi verið rædd á fundinum. Siv var spurð því í Silfri Egils í dag hvort ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak hafi verið rædd á ríkisstjórnarfundinum títtnefnda og sagðist hún ekki muna það. Siv sagði líka svo langt liðið frá fundinum að hún hafi þurft að fletta því upp hvort hún hafi yfirhöfuð verið á fundinum. Skoðum hvað ráðherrar Framsóknarflokksins hafa sagt um efni fundarins. Halldór Ásgrímsson, sem stýrði fundinum í fjarveru Davíðs Odssonar, segir Íraksmálið hafa verið fyrsta mál á dagskrá. Í kjölfarið hafi hann og Davíð, þáverandi forsætisráðherra, ákveðið að styðja aðgerðirnar. Guðni Ágústsson ráðherra sagði eftirfarandi í Sunnudagsþættinum á Skjá Einum: „Auðvitað var búið oft að ræða um Íraksmálið en þessa ákvörðun tóku þeir (Davíð og Halldór). Af hverju þeir gerðu það með þessum hætti kann ég ekki að segja frá." Í kjölfarið skrifar Valgerður Sverrisdóttir ráðherra á heimasíðu sína að Guðni muni ekki að fyrirhuguð innrás hafi verið rædd á ríkisstjórnarfundinum. Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, var ekki á fundinum og segist ekki vita hver orðaskiptin voru. Af yfirlýsingum Valgerðar og Halldórs má ljóst vera að Íraksmálið og fyrirhuguð innrás var rædd á fundinum en eftir stendur hvort ákvörðun um stuðning hafi verið rædd. Ítrekað hafa fréttamenn reynt að fá svar við þeirri spurningu. Enginn ráðherra Framsóknarflokksins hefur þó stigið fram í ljósvakamiðlum og sagt af eða á um það tiltekna atriði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×