Innlent

Langur málflutningur olíufélaganna

Búist er við að munnlegur málflutningur í olíumálinu fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála standi fram á kvöld. Lögfræðingar stóru olíufélaganna mættu til fundar nefndarinnar í morgun ásamt fulltrúa Samkeppnisstofnunar.  Fundur áfrýjunarnefndar samkeppnismála hófst klukkan níu í morgun en hann er haldinn á Hótel Sögu þar sem nefndin á engan fastan fundarstað. Lögfræðingar olíufélaganna komu allir til fundar áfrýjunarnefndarinnar á sama tíma en gert er ráð fyrir að hvert félaganna fái tvær klukkustundir til að flytja mál sitt. Fundurinn er haldinn í kjölfar áfrýjunar olíufélaganna á úrskurði Samkeppnisráðs frá því í lok október síðastliðins um verðsamráð olíufélaganna frá 1. mars 1993, þegar samkeppnislög tóku gildi, til desember árið 2001 þegar Samkeppnisstofnun gerði húsleit hjá félögunum. Samkvæmt úrskurðinum voru olíufélögin sektuð um samtals rúmlega tvo milljarða króna sem þau vilja ekki una. Stjórnvaldssektir á hvert stóru félaganna hljóðuðu upp á 1,1 milljarð króna en Orkunni var gert að greiða 40 milljónir króna í sekt. Áfrýjunarnefdnin hefur sex vikur til að komast að niðurstöðu en talið er að nefndin þurfi lengri tíma en það til að ljúka verki sínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×