Innlent

BBC hætti Blackberrynotkun

Blackberry sími. Upplýsingafulltrúi Og Vodafone segir mikinn áhuga á Blackberry, en í símtækið er hægt að fá sendan tölvupóst jafnóðum og hann berst í tölvuna.
Blackberry sími. Upplýsingafulltrúi Og Vodafone segir mikinn áhuga á Blackberry, en í símtækið er hægt að fá sendan tölvupóst jafnóðum og hann berst í tölvuna.

Breska ríkis­út­varpið, BBC, sagðist ný­verið hafa þurft að hætta að nota Black­berry tölvupóstþjónustu eftir að yfirmenn stofnunarinnar urðu fyrir því að brot úr tölvu­póst­samskiptum annarra birtust inni í þeirra eigin skilaboðum.

Í breska dagblaðinu Guard­ian var frá því greint að með­al textabrota sem fóru á flakk hafi verið athugasemdir dagskrár­stjóra um hvort söng og leikkonan Cilla Black hentaði BBC1 rásinni. Hér bjóða bæði Og Vodafone og Síminn upp á Blackberry síma. Gísli Þorsteinsson upplýsinga­full­trúi Og Vodafone segir fyrirtækið hafi ekki orðið vart við nein vandamál líkt og í Bretlandi, enda muni þar hafa verið um ein­stakt tilvik að ræða. Hann segir Research In Motion, sem fram­leiðir Blackberry hafa tekið bilun­ina hjá BBC mjög alvarlega og fundið út úr vandanum á um tveim­ur sólarhringum.

"Í ljós kom að bilunin átti sér stað í Busi­ness Enterprice Solution póst­þjóni og hennar varð ekki vart fyrir utan eldvegg BBC. Af þeim sökum hafði bilunin ekki áhrif utan fyrirtækisins," segir hann og telur lausn Blackberry bæði stöðuga og góða, enda hafi hún verið sett upp á ríflega 55 þús­und póstþjónum víða um heim, fyrir tæplega fjórar milljónir við­skipta­vina.

"Hjá BBC átti bilunin sér stað hjá einum notanda af 300. Sé þetta mál borið saman við aðra framleiðendur er ljóst að Black­berry lausnin er einstaklega áreið­an­leg og stöðug," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×