Erlent

62 liggja í valnum eftir daginn

Sextíu og tveir liggja í valnum eftir hrinu grimmdarlegra árása í Írak í dag. Skotmörk hryðjuverkamannanna í dag voru helgistaðir sjíta í borgunum Najaf og Kerbala. Tilgangurinn er að sögn stjórnmálaskýrenda að reka fleyg á milli sjíta og súnníta í von um trúarbragðastríð. Auk þeirra sem fórust í árásunum særðust hundrað og þrjátíu. Þetta er mesta mannfall í árásum af þessu tagi síðan í júlí. Árásin í Kerbala var önnur bílsprengjuárásin í borginni á fimm dögum. Báðar sprengjurnar sprungu skammt frá Imam Hussein hofinu sem er einn helgasti staður sjíta. Lögregluskóli og strætisvagnastoppistöð eru skammt þar frá, sem er ein ástæða þess að fjórtán fórust og þrjátíu og níu særðust. Starfsfólk sjúkrahúsa sagði konur og börn áberandi meðal fórnarlambanna. Imam Ali hofið var skotmarkið í Najaf og aðstæður þar voru svipaðar: skammt frá var strætisvagnastoppistöð. Ökumaður bifreiðar, fylltri sprengiefni, sprengdi sig í loft upp um þrjúhundruð metra frá hofinu í miðri fólksmergð. Fjörutíu og átta hið minnsta fórust og níutíu særðust, margir hverjir alvarlega. Sjónarvottur sagði vettvanginn blóði drifinn. Lögreglan setti útgöngubann í borginni í kjölfarið. Uppreisnarmenn gera um hundrað árásir á dag, þó að fæstar séu jafn mannskæðar og árásirnar í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×